150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[17:17]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Snemma í ræðu hv. þingmanns, og reyndar á öðrum vettvangi áður, hef ég tekið eftir því að hv. þingmaður virðist hafa áhyggjur af lýðræðinu þegar stjórnmálamenn reyna að forðast að taka geðþóttaákvarðanir og setja ákvarðanir í einhvers konar faglegt mat eða láta faglega aðkomu ráða ferð. Þá fer hv. þingmaður að hafa áhyggjur af því að stjórnmálamenn stjórni ekki nógu miklu. En aftur á móti skortir algerlega stuðning hv. þingmanns við t.d. hugmyndir Pírata um lýðræðisumbætur og þá meina ég á öllum sviðum. Hvort sem um er að ræða þátttöku almennings í ákvarðanatökunni sjálfri, þar skortir stuðning hv. þingmanns við þær lýðræðisumbætur og þá lýðræðisvernd, eða þegar kemur að því að efla einstaklingsfrelsi, sem er annar vinkill á lýðræðinu, tek ég ekki eftir stuðningi frá hv. þingmanni. Þegar kemur að aðgengi almennings að upplýsingum, nefnilega gagnsæi og öðrum leiðum til að taka þátt í ákvörðunum skortir einnig stuðning frá hv. þingmanni. Það er eins og hv. þingmaður sé rosalega mikið til í lýðræðið þegar það snýst um það að valdefla stjórnmálamenn. Þegar kemur að því að valdefla einstaklingana í landinu, hvort sem er sem kjósendur eða sem einstaklinga í sínu eigin lífi, skortir algerlega stuðninginn.

Mig langar bara að fá það á hreint, virðulegur forseti, (Forseti hringir.) hvort hv. þingmaður styðji við lýðræðisumbætur á þessum víða grunni og hvort hann sé þá til í að gera það almennt eða hvort það sé bara þegar hann vill sjálfur fá að ráða meiru þegar hann loksins kemst aftur til valda.