150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[17:18]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vona að ég nái að draga úr áhyggjum hv. þingmanns og jafnvel gleðja hann með því að allt sem hann nefndi eru hlutir sem að mínu mati eru afskaplega mikilvægir. Ég hef talað fyrir t.d. auknu beinu lýðræði frá því ég byrjaði í stjórnmálum. En auðvitað er ekki sama hvaða leiðir menn fara að ákveðnum markmiðum og ég er ekki viss um að ég sé alltaf sammála Pírötum um leiðirnar, þó að við getum verið sammála um markmiðin. Það kann vel að vera að það sé miklu meiri grundvöllur fyrir okkur til þess að vinna saman að þessum málum. Til að mynda nefndi hv. þingmaður hér einstaklingsrétt, sem er atriði sem hefur verið mér mjög ofarlega í huga, og nauðsyn þess að efla réttindi einstaklinganna í landinu, ekki hvað síst núna þegar við búum við þessi agalegu ímyndarstjórnmál sem raða fólki alltaf í hópa og meta fólk út frá því hvaða hópum það tilheyrir frekar en rétti hvers og eins sem einstaklings.

Stutta svarið, herra forseti, er að (Forseti hringir.) ég held að það sé heilmikill viðræðugrundvöllur fyrir okkur í þessari samhentu stjórnarandstöðu til að ræða núna á þessu nýja þingi.