150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[17:19]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það heyrist kannski ekki í útsendingunni en við hér í þingsalnum heyrum mótmæli hérna fyrir utan þar sem er kallað eftir nýrri stjórnarskrá. Það var algengt að svona mótmæli væru haldin á kjörtímabilinu 2013–2016. Þá var ég í stjórnarandstöðu, hv. þingmaður var þáverandi hæstv. forsætisráðherra. Það sem mér fannst einkenna alla pólitík sem þá var stunduð var algjört skeytingarleysi gagnvart kröfum almennings um nýja stjórnarskrá, sér í lagi beint lýðræði. Ég hef aldrei heyrt hv. þingmann styðja þessi málefni fyrr en núna. Það gleður mig reyndar ef svo er. Það vill svo til að það er til ágætistillaga um það að 10% kjósenda geti knúið fram bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um frumvörp eða mál sem Alþingi hefur samþykkt. Ég hef ekki orðið var við neinn stuðning frá hv. þingmanni í þeim efnum. Ég hef ekki orðið var við það að hv. þingmaður styðji í orði — nema núna í fyrsta sinn, eftir því sem ég best veit — einhverjar raunverulegar umbætur. En það er eins með Sjálfstæðisflokkinn, það er alltaf talað rosalega fallega um einstaklingsfrelsi. Það er voðalega merkilegt og mikilvægt. Og lýðræðið. Það er nú voðalega merkilegt og mikilvægt þar til kemur að því að setja reglur til að styrkja það, þá allt í einu vantar alla upp á dekk, nema auðvitað Pírata.