150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[17:21]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður ítrekar að hann hafi aldrei heyrt mig ræða þessi mál. Mér sárnar nú örlítið að hann skuli ekki fylgjast betur með ræðum mínum og greinilega ekki lesa greinar mínar en ég veit að það er nóg að gera hjá þingmönnum og menn geta ekki legið yfir öllum greinum sem skrifaðar eru í blöð og kannski ekki náð öllum ræðum heldur. En ég ítreka það sem ég sagði áðan, ég held að margt af því sem hv. þingmaður nefndi séu mjög mikilvæg atriði. En það er ekki þar með sagt að allir þingmenn séu sammála um bestu leiðirnar að þeim markmiðum. Stjórnmálaumræðan þarf auðvitað að snúast um leiðirnar, (HHG: Ég var …) ekki bara markmiðin heldur leiðirnar líka. Það er dálítil tilhneiging til þess, finnst mér stundum hjá Pírötum, að telja sig handhafa sannleikans, einu mennina sem séu ekki bara með réttu markmiðin heldur líka réttu leiðirnar og svo jafnvel að fordæma alla aðra. Það er óþarfa neikvæð nálgun, finnst mér. Við ættum miklu frekar að gera eins og ég bauð upp á hérna áðan, að finna hvort stjórnarandstaðan, þessi geysilega þétta og samhenta stjórnarandstaða,(Forseti hringir.) geti ekki unnið þessi mál í sameiningu.