150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[17:32]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir ræðu hans. Mig langar aðeins að hafa orð á því sem hann sagði varðandi gróðurhúsalofttegundir og að útblástur hafi aukist, væntanlega kannski á tveimur árum, tveimur og hálfu ári, tímanum sem þessi ríkisstjórn hefur setið en kannski í lengri tíma, ég skal ekki segja um það, en ég vil að hann útskýri hvernig hann fær það út. Í landbúnaði hefur ekki orðið aukning, í sjávarútvegsmálum hefur orðið um 200.000 tonna samdráttur vegna breytinga á eldsneyti: metan, aukin nýting, og verður meiri með nýrri stöð Sorpu á höfuðborgarsvæðinu. Orkuskiptin? Þar höfum við verið í öðru sæti á eftir Noregi þegar kemur að samgöngum. Við erum með 29% bindandi losun í þessu ETS-kerfi, getum farið miklu hærra ef við viljum og við höfum aukið bindingu, sem ég veit að er ekki losun en hefur líka (Forseti hringir.) skipt máli.

Þannig að nú langar mig að fá skýringar á hans orðum — raunverulegar.