150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[17:37]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu sem dró svolítið upp stóru myndina sem er svo mikilvægt að við höfum í huga, ekki síst á þessum tímum. Það hefur verið margoft dregið fram að hagkerfi okkar Íslendinga er auðlindadrifið. Við höfum nýtt farsællega sjávarútveg, sjávarauðlindir okkar. Við höfum nýtt orkuauðlindir okkar og ferðaþjónustan gengur út á náttúruna en við höfum skilið svolítið eftir fjórða geirann eða tæknigeirann sem ýtir undir það að nýsköpun og sprotafyrirtæki geti vaxið og dafnað. Hér fyrr í dag sagði forsætisráðherra m.a. að hún hefði ekki áhyggjur af þeirri gömlu tuggu þegar gjaldmiðillinn væri nefndur, en vel að merkja: 75% nýsköpunar- og sprotafyrirtækja hafa dregið það fram að gjaldmiðillinn sé sá þáttur sem hafi hvað neikvæðust áhrif á rekstur þeirra fyrirtækja hér heima. Deilir hv. þingmaður þessum áhyggjum mínum af sinnuleysi hvað það varðar hvernig við (Forseti hringir.) ætlum að byggja upp nýsköpunar- og sprotafyrirtæki þannig að þau geti vaxið og dafnað, ekki bara með tímabundnum aðgerðum til skemmri tíma heldur að þau geti vaxið áfram til lengri tíma?