150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[17:39]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað deili ég þeim áhyggjum. Ég held að við eigum bara svo afskaplega mikið undir því að við fetum okkur yfir í nútímalegri atvinnuhætti og förum að nýta hugvit og þannig fyrirtæki í ríkari mæli, fremur en að byggja allt á auðlindadrifnum iðnaði, þó að hann geti leitt af sér ótrúlega hluti og nýsköpun líka. Mér finnst það ótrúlegt þegar forsvarsmenn ríkisstjórnar gera lítið úr því þegar atvinnulífið sjálft kallar eftir betra umhverfi. Mér finnst það í rauninni hámarkið að vilja ekki einu sinni taka hlutina til skoðunar heldur afgreiða þá bara á einu bretti. Ég held að fámenn þjóð eins og Íslendingar geti átt sér mjög ríka framtíð með tæknigreinum, ég tala nú ekki um ef við nýttum í auknum mæli hina stafrænu byltingu sem er að ríða yfir.