150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[17:41]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, það var reyndar rauði þráðurinn í því sem ég var að reyna að segja. Ég held að við stöndum frammi fyrir gríðarlega miklum og stórum áskorunum sem krefjast þess að allir rói í sömu átt innan ríkisstjórnar og stjórnvalda. Þess vegna finnst mér ríkisstjórn sem er mynduð um pólitískan stöðugleika, sem í reyndinni verður svo ekkert annað en að sitja bara í fjögur ár, kolrangt svar við stöðunni í dag. Ég held að við þyrftum nefnilega frekar á því að halda núna að við myndum skerpa línurnar í þingsalnum og við myndum vinna saman, þau sem eiga samleið, og svo vinna hinir saman sem eiga samleið. Ég held að það sé eina rétta leiðin í dag. Ég efast ekki eitt augnablik um vilja og áhuga Vinstri grænna á því að taka miklu djarfari skref í þessum nauðsynlega málaflokki en til þess þurfa þau aðra samherja.