150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[17:42]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ljómandi góða ræðu. Ég hélt í augnablik að hann væri að segja mér frá kosningum í nánd, ræða hans var einhvern veginn þannig, en mjög góð samt. Þannig að ég er pínu sorgmæddur að heyra að hann gat ekki klykkt út með því að segja að það væri kosningar núna á morgun eða hinn því að við þurfum virkilega á því að halda að breyta um takt. Ég er sammála hv. þingmanni um það. Hv. þingmaður nefndi menntamálin og mikilvægi þess að efla þekkingu og í rauninni mennta fólk til framtíðar sem getur búið til eitthvað nýtt og skemmtilegt fyrir okkur og tekið okkur í næsta skref, inn í næstu iðnbyltingar sem fram undan eru. En til þess þurfum við að sjálfsögðu líka að vera með atvinnulíf sem getur tekið við þessu ágæta fólki og skapað því störf eða ráðið það til vinnu og þess háttar. Ég spyr hv. þingmann hvort hann sé svo langt frá þeirri skoðun minni að það sé mikilvægt að leita leiða til að létta álögum af atvinnulífinu þannig að það geti tekið til hjá sér eða fjölgað starfsfólki, (Forseti hringir.) farið í meiri nýsköpun og búið til eitthvað meira nýtt.