150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[17:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Þetta er einmitt sú hugsun sem ég held að við þurfum að einblína meira á, hvernig við getum auðveldað fyrirtækjunum að ráða til sín fólk og setja fjármuni líka í nýsköpun hjá sér. Það er ekki nóg að unga út fullt af flottu, menntuðu fólki. Það þurfa að vera einhver störf fyrir það. Þess vegna langar mig líka að spyrja hv. þingmanninn í framhaldi af þessu hvort það sé alveg fjarri lagi að við gætum sameinast um að beita jákvæðum hvötum í loftslagsmálum. Í stað þess að leggja á skatta og gjöld myndum við verðlauna t.d. fyrirtæki og einstaklinga sem ganga fremst í flokki í að fara í orkuskipti, skipta út ökutækjum og slíku fyrir rafmagnsbíla, veita skattafslátt fyrir nýsköpun sem leiðir til þess að það komi fram nýjar lausnir í umhverfismálunum o.s.frv. Nýta innlent eldsneyti með einhverjum hætti. Vegna þess að mér finnst við gera of mikið af því — eða þið sem viljið fara þá leið, réttara sagt — að hugsa bara í sköttum og neikvæðum hvötum á einstaklinga og fyrirtæki.