150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[17:46]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nei, ég útiloka það alls ekki. Ég held að það sem við þurfum að gera núna, af því að við vitum að við þurfum að bregðast við hegðun okkar síðustu 100–150 árin hér á þessari jörð, sé að safna öllum mögulegum tiltækum vopnum í búrið og nýta þau. Meðal þeirra geta einmitt verið jákvæðir hvatar. Ég held að það sé í mörgum tilfellum til þess fallið að fá fólk til að auka meðvitund sína. Auðvitað skiptir máli hvernig hvatarnir eru. Sums staðar gagnast þeir, sums staðar ekki. Ég held að það eigi að vera íþyngjandi að sýna af sér óþarfa sóðaskap. Við þurfum að gera hvort tveggja, held ég. En ég skal algerlega setjast niður með hv. þingmanni og ræða þessa hluti. Grænir hvatar á þessu sviði eins og svo mörgum öðrum skipta máli og við höfum kannski beitt þeim of lítið.