150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[18:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við fáum meira af málefnalegum spurningum frá hv. þingmanni og fullyrðingum. Ég er ekki að láta skattgreiðendur gera eitt eða neitt. Ég hef stutt hvern heilbrigðisráðherrann á fætur öðrum í ýmiss konar átaksverkefnum, m.a. ætla ég að vísa til þess að fyrir nokkrum árum létum við opna Vífilsstaðaspítala að nýju til að létta á Landspítalanum svo að hann yrði ekki stíflaður vegna mikils þrýstings á bráðamóttökunni. En þrátt fyrir ýmiss konar átaksverkefni lendir bráðadeildin ítrekað í vanda. Sá málaflokkur, virðulegi þingmaður, er hjá fagráðherra. Það er ágætt hjá hv. þingmanni að taka þessa umræðu upp við hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég bendi hins vegar á að ég hef verið talsmaður blandaðra lausna í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Ég hef talað fyrir því að við ættum að berjast gegn hvers kyns sóun í kerfinu, að við ættum að nýta sveigjanleika einkaframtaksins en fleiri raddir í þingsal hafa talað (Forseti hringir.) gegn einkaframtakinu, jafnvel þegar augljóst er á öllum tölum að það gæti leitt til sparnaðar fyrir skattgreiðendur sem hv. þingmaður er skyndilega orðinn talsmaður fyrir. Það er eitthvað nýtt frá Samfylkingunni.