150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[18:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér kemur upp þingmaður sem er holdgervingur þeirra sjónarmiða sem ég rakti áðan, þ.e. það er látið eins og hægt sé að leysa hvers manns vanda, þetta sé bara spurning um vilja, það sé enginn skortur og engin takmörkuð gæði. Veruleikinn er hins vegar annar, ég fullyrði að lífsgæði eru hvergi meiri en á Íslandi. Ég fullyrði það. Það þýðir ekki að við höfum leyst hvers manns vanda. Það er ómögulegt verkefni sem hv. þingmaður telur að setji Ísland skör neðar en önnur lönd vegna þess að við höfum ekki gert það. Við höfum hins vegar gert ótrúlega vel og það er ekki sjálfgefið mál að menn geti fært jafn mikla fjármuni inn í almannatryggingakerfið og við höfum gert á undanförnum árum til að gera betur við þá sem eru komnir á lífeyrisaldur og eru á örorkubótum. Við höfum gert mun betur og við höfum gert stórkostlegt átak. Þetta sýna allar tölur.

Ef hv. þingmaður vill ræða við mig um það (Forseti hringir.) hvort ég telji þetta hafa verið mikilvægt segi ég: Já, og við munum halda því áfram. Það er grundvallaratriði í okkar stefnu að hafa hér kraftmikla framleiðslu og nýta gæði landsins til að geta gert einmitt þetta.