150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[18:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði ekkert af því sem hv. þingmaður sagði mig hafa sagt. Ég er einmitt að segja að við getum gert betur en það gerist ekki af sjálfu sér. Það þarf að nýta gæði landsins, það þarf að leggja áherslu á aukna framleiðni og við þurfum að framleiða úr þeim gæðum sem okkur eru gefin, t.d. frá náttúrunnar hendi, og leggja áherslu á mannauðinn í landinu. Þess vegna hefur þessi ríkisstjórn t.d. lagt stóraukna áherslu á nýsköpun.

Varðandi Íbúðalánasjóð er núvirt tap Íbúðalánasjóðs áætlað einhvers staðar í kringum 200 milljarða af útlánastarfseminni. Sá reikningur hefur ekki verið greiddur. Hann mun falla á ríkissjóð í einhverjum hlutföllum af þessum 200 milljörðum á komandi árum. Þessi vandi er núna geymdur inni í ÍL-sjóði. Ég bendi hv. þingmanni á spegilmynd af þessu tapi ríkissjóðs og hún birtist í lægri vöxtum heimilanna sem losnuðu úr viðskiptum við sjóðinn og njóta í dag lægri vaxtagjalda úti á hinum almenna markaði (Forseti hringir.) og það má áætla u.þ.b. krónu fyrir krónu að allir þessir 200 milljarðar séu ávinningur heimilanna af því að hafa losnað úr viðskiptum við Íbúðalánasjóð.