150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[18:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sú staða hefur verið viðvarandi frá stofnun ofanflóðasjóðs seint á tíunda áratugnum, núna í rúmlega 20 ár, að sjóðurinn hefur aldrei fengið fjárheimildir sem eru jafn háar eða hærri en gjaldið sem lagt var á til að fjármagna framkvæmdir sjóðsins. Það hefur aldrei verið þannig. Á köflum held ég að þetta hafi verið skiljanlegt vegna þess t.d. að menn hafi verið í hönnunarfasa eða öðru slíku en fyrir mér er það óréttlætanlegt að kynna til sögunnar sérstakt gjald, eins konar skatt, í þessum einangraða tilgangi og ráðstafa fjármununum ekki í þeim tilgangi þegar upp er staðið. Úr þessari stöðu ætla ég að vinna með umhverfisráðherra sem nú situr og við munum uppfæra áætlanir um framkvæmdir sjóðsins í samræmi við það sem hannað hefur verið og áætlað er að sé raunhæft að gera. (Forseti hringir.) Til þess mun sjóðurinn þurfa að fá auknar fjárheimildir.