150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[18:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að auknar fjárheimildir til ofanflóðasjóðs munu hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs og það er án vafa aðalástæðan fyrir því að sjóðurinn hefur ekki fengið úthlutað allri þeirri fjárhæð sem innheimt hefur verið með þessari sérstöku gjaldtöku í gegnum tíðina í rúmlega 20 ár. Hins vegar skulum við ekki gera lítið úr því að mikið hefur verið framkvæmt og það hefur skipt sköpum eins og við sjáum núna nýjasta dæmið um á Flateyri. Það hefur skipt sköpum fyrir bæði líf og mannvirki að hafa verið að framkvæma á undanförnum árum en við verðum einfaldlega að gera betur. Ég hef sýnt það í verki að skattar eða gjöld sem lögð eru á í ákveðnum tilgangi þurfa að rata til síns heima. Þetta átti við þegar við tókum við 2013 og hættum að skerða útvarpsgjaldið sem átti að renna til Ríkisútvarpsins að fullu en á þeim tíma var það tekið í ríkissjóð að hluta. (Forseti hringir.) Gegn slíku hef ég áður barist og við þurfum að lagfæra misréttið í þessu.