150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[18:19]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Eins og hæstv. fjármálaráðherra benti á áðan voru heilbrigðisstarfsstéttum, sérgreinalæknum, veittar hækkanir, nauðsynlegar hækkanir, til þess að uppfylla stjórnarsáttmála þess tíma þegar hæstv. ráðherra var fjármálaráðherra í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Þetta gerðist eftir að læknar á Íslandi fóru í fyrsta skipti í sögunni í verkfall. Ríkisstjórnin brást við á endanum um áramótin 2014/2015 og hækkaði laun. Ef ég man tölurnar rétt voru það í kringum 4 milljarðar sem þetta kostaði á ársgrundvelli á sínum tíma. Síðan fóru hjúkrunarfræðingar í verkfall. Það hefði kostað sömu upphæð, þótt þeir séu helmingi fleiri, að ná sátt við þá og láta þá lenda á þeim stað að þeir væru að fá greidd sambærileg laun, þó ekki alveg en í áttina að því sem greitt er í nágrannaríkjunum okkar, eins og kom fram í kosningaloforðum flokkanna sem þá sátu í ríkisstjórn.

Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra sem er með þetta í sínum höndum, en síðast samþykkti hann að setja lögbann á verkfall hjúkrunarfræðinga: Hver er staðan núna? (Forseti hringir.) Hjúkrunarfræðingar senda út yfirlýsingu um það að þolinmæðin sé á þrotum. (Forseti hringir.) Stöndum við frammi fyrir verkföllum þarna? Hvað hyggst fjármálaráðherra gera í stöðunni?