150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[18:20]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þarna erum við aftur að snerta á þessari umræðu sem ég kom inn á í framsögu minni sem er að við getum ekki eytt sömu krónunni tvisvar sinnum. Framan af var lögð áhersla á að bæta starfskjör heilbrigðisstétta. Kröfurnar sem við stöndum frammi fyrir í dag gagnvart heilbrigðisstéttunum eru allt annars eðlis en þær sem við stóðum frammi fyrir á sínum tíma og hv. þingmaður rifjaði upp. Það var auðvitað alger neyðarráðstöfun að samþykkja lög hér á þinginu en það var látið reyna á þá lagasetningu og hún stóðst. Gerðardómur komst að sinni niðurstöðu og niðurstaða í gerðardómi var ekki mjög langt frá kröfugerð hjúkrunarfræðinga á þeim tíma. Ég vil meina að með gerðardóminum hafi hjúkrunarfræðingar fengið verulegar kjarabætur, jafnvel þótt hægt sé að harma það að deilan skyldi hafa endað með þeim hætti. Ég ætla að leyfa mér að (Forseti hringir.) vera áfram vongóður um að þeirri samningalotu sem nú stendur yfir ljúki með samningum. Þar er m.a. verið að ræða um vaktafyrirkomulag (Forseti hringir.) þar sem þarf að gera breytingu.