150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[18:48]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Undanfarin ár, rúman áratug, hefur íslenskt samfélag einkennst af miklu umróti. Fyrst var það hið fræga góðæri sem endaði með hruni og erfið og krefjandi uppbyggingarár fylgdu á eftir. Íslendingar hafa náð ótrúlegum árangri á síðustu árum, slíkum árangri að fæsta ef nokkra hefði órað fyrir slíku þegar rykið settist eftir hrun bankakerfis. Almenningur og viðskiptalíf tóku því sem höndum bar og hófust strax handa. Öldurnar lægði smám saman og má segja að kjarasamningur síðasta árs, lífskjarasamningurinn, hafi undirstrikað vilja vinnumarkaðarins til að ná jafnvægi. Kosningar á kosningar ofan voru birtingarmynd umrótsins í stjórnmálunum. Það var því eitt af mikilvægustu verkefnum stjórnmálanna eftir kosningarnar 2017 að ná jafnvægi. Sú styrka stjórn sem nú situr gerði það að meginmarkmiði sínu að efla þær stoðir samfélagsins sem höfðu verið vanræktar. Það hefur hún gert með stórsókn á flestum sviðum, hvort sem horft er til samgangna, menntamála, húsnæðismála, heilbrigðismála, loftslagsmála og svo mætti lengi telja. Þetta er stjórn uppbyggingar og stjórn jafnvægis og með aðkomu hennar að skynsamlegum kjarasamningum er ein afleiðingin að vextir eru sögulega lágir og það skiptir heimili og fyrirtæki landsins mjög miklu máli.

Það er þó aldrei svo í stjórnmálum að verkefnunum ljúki. Síðasta ár var ekki aðeins ánægjulegt heldur færði okkur gjaldþrot flugfélags sem var orðið mikilvægur hlekkur í íslenskri ferðaþjónustu. Síðasta ár færði okkur líka loðnubrest. Þetta voru tvö stór áföll fyrir íslenskt hagkerfi og erfiðast auðvitað fyrir þá sem misstu vinnuna en hafði einnig mikil áhrif í viðkomandi byggðarlögum, sveitarfélögum. Fyrir ekki svo mörgum árum hefði eitt slíkt áfall nægt til að nánast kollvarpa efnahagskerfinu. En það gerðist ekki nú og sýnir svo ekki verður um villst að hagkerfið er sterkt, ríkissjóður öflugur og samfélagið er sterkt. Um leið og fyrrnefnd áföll sýndu styrk samfélagsins og kerfisins voru önnur sem afhjúpuðu veikleika þess. Ofsaveðrið sem geisaði á norðurhluta landsins í desember afhjúpaði hversu lítils við megum okkur gagnvart náttúrunni og veðrinu og einnig nú í janúar í snjóflóðunum fyrir vestan. Við verðum einfaldlega að leggja meiri áherslu á grunnkerfin okkar og vil ég þá sérstaklega nefna raforkukerfið. Þegar allt gengur vel og allar ytri aðstæður eru hagfelldar vill það verða stundum svo að við gleymum að tryggja okkur gagnvart erfiðari tímum.

Umræður um raforkumál á Íslandi síðustu árin hafa að mestu snúist um að nóg hafi verið virkjað, nóg hafi verið lagt af línum og að mörgu leyti að raforkan sé einhvers konar óþarfa lúxus. Það er nú bara þannig að ef rafmagnið er ekki traust eru önnur kerfi það ekki heldur. Við fundum það á ferðum okkar um Norðurland í kjölfar óveðursins að fólk fann fyrir óöryggi enda ekki ásættanlegt að ekki sé hægt að treysta á grundvallarkerfi eins og raforku eða fjarskiptakerfi. Ríkisstjórnin brást strax við með því að skipa sérstakan átakshóp sem hefur lagt sig eftir því að hlusta á allar raddir, heyra allar sögur og tillögur þeirra sem óveðrið hafi áhrif á. Út frá þeim upplýsingum munum við síðan leggja drög að úrbótum. Vegna þess jafnvægis sem ríkisfjármálin hafa náð erum við í stakk búin til að gera áætlanir til lengri og skemmri tíma og það sem skiptir öllu máli: Að standa við þær áætlanir.

Annað högg sem samfélagið varð fyrir á síðasta ári var hið svokallaða Samherjamál sem beindi athyglinni að sjávarútveginum. Nú er það svo að íslenskur sjávarútvegur er ein mikilvægasta stoð samfélagsins sem við getum verið stolt af sem þjóð. Ég leyfi mér að fullyrða að íslenskur sjávarútvegur er í fremstu röð í heiminum hvað varðar ábyrga og sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins. Grundvöllur að þeirri ábyrgu nýtingu er kvótakerfið. Eitt af því sem unnið hefur verið undir styrkri stjórn forsætisráðherra er að koma með tillögur að breytingum á stjórnarskrá lýðveldisins. Þar er auðlindaákvæðið eitt það mikilvægasta. Framsókn leggur mikla áherslu á að það ákvæði sem lagt hefur verið fram um auðlindir verði hluti af stjórnarskránni til að tryggja eignarrétt þjóðarinnar á auðlindum á sjó og í landi. En það er ekki nóg. Þótt kvótakerfið skili og hafi skilað samfélaginu miklum tekjum er það ekki fullkomið frekar en önnur mannanna verk. Það hefur örugglega engum sem stóð að því upphaflega að búa til það kerfi dottið í hug að svo fá fyrirtæki og í raun einstaklingar réðu yfir svo stórum hluta af veiðiheimildum við Íslandsstrendur. Við getum hins vegar lagfært margt í kerfinu án þess að kollvarpa því góða kerfi.

Byggðir landsins eru margar og stundum er gert í því að magna upp einhvern eðlismun á milli þeirra. Við erum samt ein þjóð og verðum að hugsa um hagsmuni heildarinnar og virða ólík sjónarmið. Þegar á bjátar, eins og þegar snjóflóðin féllu fyrir vestan í síðustu viku, reynir á að við hlustum á frásagnir fólks af upplifun sinni. Með því að hlusta öðlumst við skilning á aðstæðum sem eru ólíkar okkar eigin. Með þann skilning í farteskinu skiljum við betur nauðsyn þess að efla innviði um allt land, leggja öruggari vegi, tryggja betur afhendingaröryggi orkunnar, raforkunnar, jafna kostnað og dreifingu hennar, tryggja öllum aðgang að menntun með nýjum menntasjóði og öflugri menntastefnu, heilbrigðisþjónustu og styðja við uppbyggingu atvinnulífs um allt land. Þar koma húsnæðismálin einnig við sögu. Að öllu þessu vinnur ríkisstjórnin nú þegar en það má alltaf gera betur.

Þróun byggðar á Íslandi hefur verið á þann veg að suðvesturhornið verður alltaf sterkara og sterkara, fjölmennara og fjölmennara. Nú er svo komið að á horninu sem nær frá Selfossi í Borgarnes, svokallað Hvítár-Hvítár svæði, búa um 84% landsmanna. Á langsamlega stærstum hluta landsins búa aðeins 16%. Þessi staðreynd og þróun sem liggur að baki henni sýnir að þrátt fyrir allar byggðastefnur sem hingað til hafa verið hafa opinber störf fyrst og fremst orðið til á suðvesturhorninu. Við þurfum að snúa þeirri þróun við. Þeir eru margir sem vilja búa og starfa í öllum landshlutum en hafa ekki kost á því vegna fábreyttari atvinnutækifæra og stundum minni þjónustu hins opinbera úti um land. Það hefur líka verið skortur á húsnæði. Þess vegna er svo mikilvægt það sem húsnæðismálaráðherra, félags- og barnamálaráðherra, er að gera, að búa til tækifæri þar. Við sjáum að nú þegar er verið að grípa til þess að fara að byggja upp á mörgum stöðum þannig að fólk sem vill þangað flytja og búa eigi þess kost.

Hluti af því að byggja upp sterkari byggðir er að styrkja sveitarstjórnarstigið og efla með stærri stjórnsýslueiningum sem geta veitt betri þjónustu. Sjálfbær og sterk sveitarfélög eru líka mikilvægur þáttur í að dreifa valdinu um landið, frá ríkinu til sveitarfélaganna og þar með nær íbúunum.

Verkefnin sem stjórnmálin standa frammi fyrir eru mörg og þau eru mikilvæg. Framsóknarflokkurinn mun vinna að framfaramálum ríkisstjórnarinnar af heilindum með það að markmiði að tryggja jafnvægi og traust í íslensku samfélagi. Og það er ánægjulegt að horfa til þess, af því að við berum okkur oft saman við Norðurlöndin, að ríkisstjórnin sem situr á Íslandi er sú traustasta og hefur setið lengst á Norðurlöndum.