150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[18:59]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt að taka fram að það er enginn bilbugur á Flateyringum. Við urðum vör við það, við sem fórum vestur og vorum með bæjarbúum um tíma, fylgdumst með fyrstu skrefunum. Það hefur auðvitað orðið þeim áfall að varnargarðurinn hélt ekki að fullu og viðhorf fólksins til þess að búa á staðnum hefur kannski breyst að einhverju leyti. Traustið hefur beðið hnekki. Það er okkar að byggja það upp. Bæjarbúar vilja fá svör. Hvað verður gert af hálfu stjórnvalda? Stjórnvöld þurfa að stíga inn við aðstæður sem þessar með afgerandi hætti og það verður að gerast hratt. Hvenær eiga stjórnvöld að grípa inn í ef ekki við aðstæður eins og þessar? Kvótinn er horfinn. Hann var sendur hindrunarlaust í burtu í hreinu hagnaðarskyni. Íbúarnir héldu áfram að ströggla í þessu ómögulega fiskveiðistjórnarkerfi sem ráðherra er nú hrifinn af engu að síður. Atvinnutækin öll sem eitt voru rifin niður í snjóflóðinu og íbúarnir eru í óvissu. (Forseti hringir.) Viðbrögð stjórnvalda þurfa því að vera snör. Hver verða þau og hvenær munu þau berast íbúum? (Forseti hringir.) Það skiptir máli að við getum skapað stöðugleika, stöðuga atvinnu og örugga framtíðarsýn og skapað trú á þessa byggð.