150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[19:03]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í stjórnarsáttmálanum stendur að við ætlum að vinna að því að stofna þjóðgarð á miðhálendinu. Að því vinnum við af heilindum, eins og ég kom inn á. Ég sagði í upphafi að fjögur skilyrði þyrftu að vera uppfyllt af minni hálfu. Í fyrsta lagi að sveitarfélögin ættu beina aðkomu að þessum hóp. Það var gert en einhverra hluta vegna hefur samtalið þróast í þá átt að sveitarfélögin, ekki síst þau sem næst hálendinu liggja, eru að álykta ýmist gegn þessu eða leggja til að menn vandi sig betur og fari varlega í þetta. Þannig að þrátt fyrir það skilyrði hefur einhvern veginn ekki náðst samtal. Í öðru lagi verði stjórnarfyrirkomulagið í það minnsta eins og er í Vatnajökulsþjóðgarði. Ég hef skilið drögin þannig að það sé svo. Það er engu að síður talsverð tortryggni á að það fúnkeri. Í þriðja lagi að þær leiðir sem eru notaðar alþjóðlega, þ.e. sjö flokkar og fjórir efstu eru þjóðgarðar, verði nýttir við að flokka landið, bæði flokkur þrjú og fjögur sem við höfum ekki reynslu af að nota á Íslandi inni í þjóðgarði, við höfum sett 95% af Vatnajökulsþjóðgarði í flokk tvö. Í fjórða lagi og síðast en ekki síst (Forseti hringir.) þegar um svona stórt verkefni ræðir sem snertir svo marga, þjóðgarður á miðhálendinu á Íslandi, 32–33%, þjóðgarður allra Íslendinga, verði ekki þjóðgarður allra Íslendinga fyrr en meginþorri Íslendinga upplifir að hann sé það.