150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[19:08]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo að menn skilji þetta nú rétt: Ein af þeim forsendum sem ég sagði að þyrfti að liggja fyrir þegar við lögðum af stað í vinnuna við miðhálendisþjóðgarðinn — það má kalla það skilyrði eða forsendur — var sú að sveitarfélögin yrðu aðilar að þessum hópi, það yrði ekki bara þverpólitískur hópur þingmanna heldur yrðu sveitarfélögin með líka. Það var gert, það voru tveir fulltrúar þar.

Ég vil segja einfaldlega: Þó að ferlið hafi gengið fullkomlega eðlilega fyrir sig og verið góð vinna unnin, bæði í starfshópnum af þeim sem þar hafa komið og þetta hafi verið kynnt nokkrum sinnum á fundum víða um land þá hef ég tekið eftir því að síðustu mánuðina, ekki síst á Suðurlandi, í kjördæmavikunni þegar við hittum sveitarstjórnir þess svæðis en líka í öðrum kjördæmum eins og í norðvestri, einhverju leyti norðaustri, hefur komið fram andstaða sveitarfélaganna við þær hugmyndir sem eru fram komnar, sem eru í samráðsgáttinni, að þau geti ekki sætt sig við þær. Þau leggja til annaðhvort meiri vinnu, meira samtal eða segja að þessar hugmyndir gangi ekki. Það hefur (Forseti hringir.) enginn lýst sig fullkomlega andsnúinn því, alla vega ekki ég, að það verði til miðhálendisþjóðgarður. En við þurfum að vanda okkur (Forseti hringir.) við vinnuna og hlusta á fólkið. Þær ályktanir koma frá sveitarfélögunum, ekki síst þeim sem eru næst miðhálendinu sjálfu.