150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[19:13]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra ræðuna en ég tók ekki eftir því og ég veit ekki hvort hann kom nokkuð inn á málefni sem Framsóknarflokkurinn er með á sínum borðum, málefni aldraðra og öryrkja. Það kom fram í umræðunni áðan við fjármálaráðherra að hann fullyrti að aldrei væri hægt að hjálpa öllum. Mig langar að vita hvort það hafi orðið umræða um það innan ríkisstjórnarinnar um það hverjir það væru sem ætti ekki að hjálpa, hvort það væru þeir verst settu eða næstverst settu eða hver þessi hópur væri sem aldrei væri hægt að hjálpa, hvort það hafi eitthvað verið rætt. Það er grafalvarlegt mál að það skuli vera búið að lýsa því yfir af fjármálaráðherra að aldrei verði hægt að hjálpa einhverjum ákveðnum hópi og mér finnst það eiginlega skelfilegt mál að það skuli hafa komið fram hér í ræðustóli. Þá á það líka að vera krafa að við vitum hverjir það eru sem eiga ekki rétt á hjálp.