150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[19:34]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið síðara sinni. Gagnrýni mín snýr einmitt að því að helsti mælikvarði þessarar ríkisstjórnar á árangur sinn er hversu mikið henni hefur tekist að auka útgjöld en ekki hvernig henni hefur tekist að bæta þjónustu. Það er það sem ég sagði í fyrra andsvari. Aðgerðum heilbrigðiskerfisins, sem landlæknir heldur utan um tölfræði yfir, hefur fækkað um fimmtung á undanförnum tveimur árum. Er það árangur? Nei, það er katastrófa, hv. þingmaður, þegar búið er að auka útgjöld til heilbrigðismála jafn mikið og raun ber vitni. Hvað er að gerast í heilbrigðiskerfinu þegar útgjöld eru stóraukin en aðgerðunum fækkar? Það heitir stjórnleysi. Það er ekki mælikvarði á árangur að mínu viti. Það segir bara það sama og alltaf á við í stjórnun: Maður mælir ekki árangur með útgjöldum. Það eru margar leiðir til að bæta árangur heilbrigðiskerfisins með óbreyttu fjármagni — og nú er ég ekki að segja að það hefði þurft, við höfum öll verið sammála um að setja heilbrigðismálin í forgang. En það er (Forseti hringir.) verulegt áhyggjuefni þegar ríkisstjórn tekst að auka útgjöld jafn mikið og raun ber vitni til heilbrigðismála og skila lakara búi (Forseti hringir.) en hún tók við.