150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[19:36]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég er þeirrar skoðunar að Samherjaskjölin séu ekki aðeins áfellisdómur yfir eigendum Samherja heldur einnig yfir því fiskveiðistjórnarkerfi og stjórnkerfi sem gerði þeim kleift að nýta góða stöðu með svo skammarlegum hætti. Skjölin eru hins vegar ekki áfellisdómur yfir almennum starfsmönnum fyrirtækisins sem eru upp til hópa heiðarlegt fólk sem sinnir vinnu sinni af ábyrgð. Samherji er eitt stærsta fyrirtæki landsins og sýslar með stóran hluta fiskveiðiauðlindar okkar, fyrirtæki sem flestir Íslendingar treystu. En með Samherjaskjölunum brást það traust og við bættist vantraust á hæstv. sjávarútvegsráðherranum sem á árum áður var stjórnarformaður Samherja. Þar á ofan bættist vantrú á framkvæmdarvald sem neitaði að leggja aukna fjármuni til rannsóknar málsins við afgreiðslu fjárlaga.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála því að viðbrögð ríkisstjórnarinnar við Samherjaskjölunum hafi verið máttlaus og ekki líkleg til að auka traust á stjórnmálum, sem minnkar stöðugt. Og einnig hvort hv. þingmaður telji ekki þetta mál, eins og reyndar svo margt annað í samfélaginu, kalla á breytta fiskveiðistjórn.