150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[19:40]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Spilling, græðgi og mútur, skattaskjól, peningaþvætti og skattsvik eru lýsandi fyrir fréttir um viðskipti Samherja í Namibíu. Að greiða mútur varðar fangelsisvist samkvæmt íslenskum hegningarlögum og þá skiptir ekki máli hvar sá sem mútað er á heima. En alveg eins og hv. þingmaður benti á, á eftir að rannsaka málið og afleiðingarnar eiga eftir að koma í ljós. En ég held að í flestum siðuðum ríkjum hefði krafan um að hraða rannsókn máls verið háværari en hér og krafa um aðgerðir gegn spillingu í viðskiptum einnig. Ekki síst hefði krafan um auðlindaákvæði í stjórnarskrá, auðlindaákvæði sem heldur vatni líkt og tillaga stjórnlagaráðs gerði ráð fyrir, verið háværari. Hér eru þetta ekki háværar kröfur þó að þær hafi heyrst.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Hvernig hefði hann helst viljað að hæstv. ríkisstjórn hefði tekið á þessum málum öllum þegar Samherjaskjölin komu fram?