150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[19:49]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið öðru sinni. Þetta er önnur mýta um hið brennandi hús Evrópu, miklu meira atvinnuleysi en hér á landi. Fyrir það fyrsta er atvinnuleysisstig alls konar í Evrópusambandinu eins og víðast um heim. En það má benda á það að árum saman hefur atvinnuleysi verið fallandi í Evrópusambandinu. Það hefur eiginlega ekki verið lægra um langt áraskeið en það er núna. Bara til að nefna einfalt dæmi er atvinnuleysi í Þýskaland 3,1%. Við erum með 4,3% atvinnuleysi hér. Er það heljarþröm evrunnar sem veldur þessu? Ég held ekki. Ég held að Þjóðverjar hafi verið að styrkja samkeppnisstöðu sína með evru um langt árabil og minnkandi atvinnuleysi sýnir hvað best árangur þeirra. Þetta er langtum lægra atvinnuleysi en verið hefur þar í landi um langt skeið og það er með evru, í Evrópusambandsumhverfinu. Þannig að ég er ekki í nokkrum vafa um að Evrópusambandsaðild hentar hagsmunum Íslands mjög vel og ekki hvað síst hagsmunum ungs fólks hér á landi sem á eftir að koma þaki yfir höfuðið og getur þá forðast þetta háa matvælaverð sem okkar kynslóðir hafa þurft að alast upp með.