150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[19:50]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ár eftir ár, áratugum saman, hafa flokkar verið við völd á Íslandi sem hafa lofað því að núna væri tími kominn til að bæta kjör þeirra verst settu hér á landi, eldri borgara og öryrkja. Því miður hefur bilið alltaf breikkað. Bilið hefur breikkað svo mikið að það vantar orðið meira en 30% ofan á örorkulífeyri bara til þess að standa á sléttu. Þingmáli Flokks fólksins um að tryggja 300.000 kr. lágmarksframfærslu almannatrygginga var hafnað núna fyrir áramót. Einnig máli stjórnarandstöðunnar um að hækka lífeyri almannatrygginga til samræmis við hækkanir lífskjarasamninga. Og hvað segir þetta okkur?

Það var fullyrt við mig úr þessum ræðustól áðan að ég hefði sagt að ekkert hefði verið gert fyrir eldri borgara og ekkert gert fyrir öryrkja. Það er rangt. Ég sagði að þeir hefðu ekki fengið nákvæmlega það sama og allir aðrir. Það er allt annar handleggur. Ég benti líka á í því samhengi að um síðustu áramót fengu þeir ekki nema rétt rúmlega helminginn af því sem launahækkunin var. Þannig að það hefur verið gert ýmislegt og ég vil líka taka fram og hef áður tekið fram að ég þakka þessari ríkisstjórn fyrir það, að hún sá til þess að það væri hætt að skatta lyfjastyrki og alls konar styrki. Það ljótasta af öllu ljótu sem var búið að koma á í áranna rás var að styrkir voru skattaðir og síðan skertir. Einstaklingur með einn einfaldan styrk fær á mánuði 5.000–15.000 kr. eða 50.000–150.000 kr. sem koma í vasann á ári. Áður hefði ekki bara sú upphæð verið tekin heldur mun meira því að þá eru eftir skerðingar sem voru upp á annað eins. Fólk var að fá styrki í góðri trú sem það taldi til marks um bætt kerfi en svo gerðu þeir suma verr stadda en þeir voru fyrir. Þetta ber að þakka. Og ég þakka fyrir það enn og aftur. Þeir tóku upp frumvarp okkar Flokks fólksins um að breyta þessu og það var samþykkt einróma.

Við verðum líka að átta okkur á því að skerðingar eru viðvarandi í almannatryggingakerfinu. Króna á móti krónu skerðingin hefur aðeins verið afnumin að hluta. Það er búið að taka krónu á móti krónu skerðinguna af eldri borgurum en hún er komin í 65 aura á móti krónu. Það er að verða komið núna á þriðja ár þar sem ríkisstjórnin hefur fengið inn tugi milljarða með því að svíkja öryrkjana um að ganga strax í þetta. Það er auðvitað alveg skelfilegt að það skuli ekki vera löngu búið að sjá til þess að þeir sem eru í þessum skerðingahópi fengju þessa leiðréttingu eins og hefur verið lofað af öllum flokkum. Við megum ekki gleyma því. Það lofuðu allir flokkar, hver einasti, fyrir síðustu kosningar að taka þetta út.

Allir málaflokkar sem varða fatlað fólk og örorkulífeyrisþega eru sveltir að stórum hluta. Það hefur jú verið gefið en ekki gefið rétt. Það hefur verið gefið að hálfu, stundum minna, stundum aðeins meira, en það hefur ekki verið gefið af sanngirni þannig að þessi hópur fengi nákvæmlega það sama og aðrir fengu, t.d. í lífskjarasamningunum. Hefðu öryrkjar fengið það líka hefðu þeir fengið kannski 20.000 kr. hækkun á sínum tíma, en því var bara breytt í prósentur og það skilaði bara brotabroti.

Það sem líka eitt sem er ömurlegt í þessu, það er verið að tala um að hægt sé að lifa á meðaltali. Það lifir enginn á meðaltali. Það er bara útilokað. Við getum bara tekið sem dæmi meðaltal launa á Íslandi á ári, helmingurinn er undir 400.000 kr. og hinn helmingurinn er rétt yfir 400.000 kr. En meðaltal launa á Íslandi er yfir 700.000 kr. Það segir okkur að það er stærri hópur sem hefur það gott og alltaf stærri og stærri hópur sem hefur það skítt. Það segir okkur líka að það er ömurlegt til þess að hugsa að stærsti hópurinn lifir á um 215.000 kr. útborguðum.

Fátækt fólk er í sjálfu sér ákveðið vandamál á Íslandi fyrir ríkisstjórn eftir ríkisstjórn. Fólkið stendur í biðröðum eftir mat og sumir eiga ekki einu sinni fyrir jólamatnum, hvað þá að eiga mat allt árið um kring. Láglaunafólkið hefur það ekkert rosalega gott. Við verðum að átta okkur á því að ef t.d. skúringafólk væri ekki til staðar hér á Alþingi værum við ekki að vinna vinnuna okkar. Við þurfum öll hvert á öðru að halda. Hér kemur líka inn í að kvennastéttir bera minnst úr býtum og þar sem þær eru á lægstu laununum fá þær lélegasta lífeyrinn og verða fyrir mestu skerðingunum. Ég spyr: Hvar er jafnréttið? Eru það skilaboð okkar út í þjóðfélagið að konur séu bara verri og eigi bara að hafa það verra? Við segjum alltaf að við viljum hafa jafnrétti en við sýnum það ekki í verki.

Heilbrigðiskerfið? Það er skelfilegt til þess að hugsa að ef maður er í lífshættu og þarf að fara á bráðamóttöku getur maður lent í enn meiri lífshættu, jafnvel svo mikilli lífshættu að þegar maður útskrifast lifir maður það ekki af, eins og hefur komið í ljós. Svona kerfi eigum við ekki að hafa. Svona kerfi ber okkur skylda til að breyta og breyta strax. Það er svolítið undarlegt í þessu samhengi að biðlistar, eins og hefur komið fram, standa eiginlega í stað eða jafnvel lengjast. Það er skelfilegasta reynsla sem ég hef upplifað að hanga á biðlista og bíða eftir aðgerð. Það á enginn að þurfa að bíða í meira en hámark þrjá mánuði. Annað er mannvonska. Annars er verið er að valda fólki tjóni. Við verðum að fara að skilja þetta og það er ömurlegt til þess að hugsa að við viljum frekar gefa fólki ótakmarkað af verkjatöflum og alls konar sterk verkjalyf sem eru ávanabindandi en að gefa fólkinu tækifæri til að fá lækningu.

Innviðir landsins eru að grotna niður að mörgu leyti. Línur rofnuðu í óveðrinu og ofanflóðasjóður er stútfullur á meðan snjóflóð valda stórskemmdum. Snjóflóð. Ég fæ hroll niður allan hrygginn þegar ég heyri af snjóflóðinu á Flateyri, af persónulegum ástæðum, vegna snjóflóðsins í Súðavík á sínum tíma. Við megum ekki gleyma því sem er mjög mikilvægt og hefur ekki verið rætt nógu vel: Snjóflóðavarnargarðarnir björguðu bænum. Ef við horfum á þessi tvö flóð og hvernig þau fóru, þá segi ég bara: Guð hjálpi okkur ef snjóflóðavarnargarðarnir hefðu ekki verið. Að vísu fór eitthvað yfir þá en við getum rétt ímyndað okkur hvað hefði skeð ef þeir hefðu ekki verið til staðar. Annað sem mér fannst til guðs lukku: Ef snjóflóð hefði fallið nokkrum klukkutímum seinna, þá hefðu menn verið komnir um borð í bátana. Það hefði orðið gífurlegt manntjón. Þetta segir okkur að við verðum að hugsa hlutina upp á nýtt og passa upp á að þetta harðduglega fólk sem reynir að lifa við þessar aðstæður, vill lifa við þessar aðstæður — okkur ber skylda til þess að sjá til þess að það geti lifað þar og okkur ber líka skylda til að sjá til þess að það geti lifað á þeim gæðum sem eru í kringum það, fiskveiðum. Við gætum t.d. haft frjálsar handfæraveiðar, frjálsar strandveiðar. Við verðum að gera eitthvað til að bjarga þessum byggðum. Okkur ber skylda til þess og við eigum að sjá til þess að þeir sem vilja lifa á þessum stöðum geti lifað óttalausir og framfleytt sér.