150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[20:03]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég bendi á og vil ítreka að Flokkur fólksins var stofnaður til þess að berjast gegn fátækt barna. Við megum ekki gleyma því heldur að forsætisráðherra sagði fyrir tveim eða þrem árum síðan að fátækt fólk gæti ekki beðið lengur. En það bíður enn. Hvað er til ráða? Ég hef t.d. bent að það er mjög undarlegt og maður hlýtur að furða sig á því að það skuli vera hægt að tapa 200 milljörðum að lágmarki út úr Íbúðalánasjóði. Það er bara yppt öxlum, ekki verið að rannsaka neitt, ekki gera neitt. Peningar sem hefðu dugað fátæku fólki í fjölda ára og komið því úr fátækt. Á sama tíma og við í Flokki fólksins höfum bent á að okkur ber skylda, til að tryggja að allir geti haft það gott á Íslandi, til að fara að skattleggja inngreiðslur í lífeyrissjóði. Við verðum að átta okkur á því að það eru yfir 5.000 milljarðar í lífeyrissjóðum. Þarna eru vel á annað þúsund milljarða skatttekjur sem er verið að „gambla“ með á markaði. Á að segja mér það svo bara blákalt að það séu ekki til peningar til að útrýma fátækt og það verði aldrei hægt að hjálpa öllum? Þetta er bara rangt. Það er nóg af peningum til, það þarf bara að setja peningana á réttan stað, ná í þá og setja þá þangað. Við erum hér að tala um peninga sem fólkið í landinu á í þessum sjóðum, lífeyrissjóðunum. Þetta eru skatttekjur sem verða hvort sem er borgaðar. Okkur ber skylda til þess að sjá til þess að þessir peningar verði notaðir strax þannig að fólk, eldri borgarar landsins, þurfi ekki að koma útskrifaðir af sjúkrahúsi, ganga að ísskápnum og horfa þar á hálfa lýsisflösku og kannski maltdós — (Forseti hringir.) eina matinn sem til er.