150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[20:07]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og ég er alveg sammála, þarna hittir hann naglann á höfuðið. Útgerðarmaðurinn sem gekk út með þessa rosalegu upphæðir, hálaunamenn sem fá svona rosalegar upphæðir. Þetta er það sem þeir kalla meðaltal. Af því að þessir menn hafa það gott hljóta allir að meðaltali að hafa það svo rosalega gott. Þeir segja: Nei, það verður ekki hægt að hjálpa öllum. En þá verða þessir aðilar að skýra út hverjum eigi ekki að hjálpa. Það er komin krafa um að það sé upplýst hverjir það eru sem á ekki að hjálpa þannig að þetta fólk fái að vita það strax að það á ekki að hjálpa því, svo það geti bara hreinlega sætt sig við að það á að lepja dauðann úr skel og það fær ekki hjálp.

Síðan með skattana. Af hverju var ekki hægt að setja allar skattahækkanir sem komu núna beint í vasa þeirra lægst launuðu, þeirra sem eru á lægstu launum og bótum? Af hverju þurfa hátekjumenn að vera með persónuafslátt? Það er nóg af peningum sem hægt er að taka af.

Ég segi fyrir mitt leyti að ég sem þingmaður núna hafði enga þörf á þessum skattalækkunum en ég hafði gífurlega þörf fyrir þær fyrir fjórum árum síðan, alveg eins og allir aðrir sem voru í þeirri stöðu sem ég var þá í. Það er þetta óréttlæti sem viðgengst. Það er ótrúlegt óréttlæti þegar maður kemur í ræðustól Alþingis og er ásakaður fyrir rangar áherslur á málefni þessa fólks. Ég er ekki með rangar áherslur. Ég hef lifað í þessu kerfi og ég veit hvernig þetta kerfi er frá A til Ö. Ég er í Sjálfsbjörg, ég var í Öryrkjabandalaginu, í kjarahópnum. Ég veit að þetta fólk er þarna úti og er bara að tóra. Við erum að senda fólk í matarbiðraðir. Árið 2020 á Íslandi sendum við fullt af fólki í matarbiðraðir. Ef það fer ekki í röðina skal það bara gera svo vel að svelta heima.