150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[20:10]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna, margt sem ég get tekið undir. Ég náði svo sem ekki að svara hv. þingmanni í andsvari varðandi örorkulífeyrinn og mín sjónarmið þar. Mig langaði aðeins að misnota aðstöðu mína hér og svara því. Ég tel algerlega nauðsynlegt að draga úr þeim tekjuskerðingum sem eru í kerfinu í dag og að það sé miklu meiri hvati til atvinnuþátttöku fyrir þá örorkulífeyrisþega sem geta á annað borð tekið að einhverju marki þátt í atvinnulífinu. Við vitum auðvitað að aðstæður lífeyrisþega eru margs konar og fjölmargir örorkulífeyrisþegar eru ekki í stakk búnir og munu aldrei geta tekið þátt í atvinnulífinu að neinu ráði. En það er líka stór hópur sem á möguleika á einhvers konar starfsendurhæfingu og þess vegna þarf kerfið að vera miklu meira hvetjandi til atvinnuþátttöku og draga úr þessum hreinu og kláru refsingum sem í dag eru.

En þar sem ég veit að hv. þingmaður hefur unnið mikið að þessum málaflokki á undanförnum árum og situr, ef ég þekki rétt, í samráðshópi hæstv. félagsmálaráðherra um endurskoðun á örorkulífeyriskerfinu langaði mig eiginlega bara að spyrja hann fregna af þeirri vinnu sem mér hefur fundist vera lítið að frétta af, alla vega á opinberum vettvangi undanfarin misseri. Þar sem næsta fjárlagaár verður einmitt síðasta fjárlagaár þessarar ríkisstjórnar: Á hv. þingmaður von á einhverri niðurstöðu í þessari vinnu fyrir næsta haust?