150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[20:12]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanni andsvarið. Jú, ég get svarað því stutt og laggott að hæstv. félags- og barnamálaráðherra hefur boðað að þetta komi inn í þingið með vorinu. Það er búið að vinna þetta, vinnu er löngu lokið. Hún var ekki í fullri sátt en vinnan var góð og grindin var orðin góð í þeirri vinnu sem fór fram. Það er alltaf, eins og vill vera, ágreiningur um ákveðna hluti. Ég vona heitt og innilega að niðurstaðan verði sú að tekið verði fullt tillit til tillögu Öryrkjabandalagsins vegna þess að við verðum að fara að hugsa hlutina svolítið upp á nýtt. Þetta er eins og ég væri að tala við hv. þingmann um málefni atvinnurekanda sem væru á dagskrá hjá nefnd um málefni atvinnurekanda og þá ætti t.d. atvinnuleysi að ráða öllu. Það gengi aldrei upp.

Þess vegna er mjög skrýtið þegar verið er að fjalla um málefni öryrkja að stærsti hópurinn er þeir sem eiga minnstra hagsmuna að gæta við að verja öryrkjana, þeir eru í hópnum að reyna að búa til einhverjar grind fyrir þá sem þeir hafa ekki hugmynd um hvernig megi samsama sig með. Við verðum að fara að setjast niður og hlusta á þá sem lifa við þessar aðstæður. Ég fullyrði, eftir þann tíma sem ég hef verið í stjórn Sjálfsbjargar og Sjálfsbjargarheimilisins og í kjarahópi Öryrkjabandalagsins, að þarna eru lausnirnar, þetta fólk vill finna lausnir og við getum það. Um leið og við gerum það getum við séð til þess að allir geti lifað með reisn.