150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[20:14]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það var annað í máli hv. þingmanns sem ég er alveg hjartanlega ósammála og það er hvert eigi að sækja fjármagnið og sú hugmynd að skattleggja inngreiðslur í lífeyrissjóði í stað útborgana. Þá langar mig að velta upp einni einfaldri spurningu fyrir hv. þingmann. Í dag er það svo að á móti hverjum einum á eftirlaunaaldri eru u.þ.b. fimm til sex á vinnumarkaði en við vitum að þetta hlutfall er að breytast mjög skarpt og því er spáð að innan fárra áratuga, tveggja, þriggja áratuga, verði þetta hlutfall er komið niður í þrjá á vinnumarkaði á móti hverjum einum á eftirlaunum. Þá er auðvitað lykilatriði í okkar lífeyriskerfi að við erum að greiða skatt af lífeyri þegar við tökum hann, þegar við njótum tekna úr lífeyrissjóðnum en ekki þegar við borgum í hann. Og mér er spurn, af því að ég hef oft heyrt þessa hugmynd og hún hefur m.a. verið borin fram af, man ég, núverandi ráðherrum Sjálfstæðisflokksins; þeir settu þessa hugmynd reyndar fram á tímum hrunsins. Þetta væri sniðug leið til að fjármagna fjárhagsvanda ríkissjóðs. En í mínum huga er einfaldlega verið að ræna framtíðarkynslóðirnar. Hvað á að standa undir samneyslu samfélagsins ef þessara skattgreiðslna nýtur ekki við þegar svona stór hluti samfélagsins er kominn á eftirlaun? Hvað á að borga fyrir heilbrigðiskerfið okkar? Hvað á að borga fyrir útgjöld almannatrygginga þá, ef við erum búin að taka þennan pening í dag og eyða honum? Þess vegna óttast ég að tillögur sem þessar megi kalla kynslóðarán. Að kynslóðirnar í dag ætli að hafa fjármunina af framtíðarkynslóðinni til að bæta lífskjör sín akkúrat núna. Það er stefna sem ég get aldrei skrifað undir.