150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[20:16]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og ég skal með glöðu geði svara. Í upphafi lífeyriskerfisins var skattað inn. Það eru margir í dag sem eru sárir, sérstaklega sjómenn, sem eru tvískattaðir. Þá ættum við líka að velta fyrir okkur hruninu, hvað tapaðist mikið af skatttekjum þar? Hvað tapaðist mikið af inneign lífeyrissjóðanna? Er eitthvað sem tryggir að þessi verðmæti sem er sagt að við eigum í lífeyrissjóðum, 5.000 milljarðar, séu til? Þetta fé er fugl í skógi, gambl á markaði. Þarna er verið að leika sér. Þarna erum við að leika okkur með skatttekjur. Það væri kannski betra fyrir ríkið að taka þessar skatttekjur og setja þær bara í sérstakan sjóð og tryggja að það sé ekki verið að leika sér með þær á markaði heldur séu þær bara til staðar. Það væri miklu nær að gera eitthvað svoleiðis en að leyfa þessu að vera svona. Almenningur fengi ekki að gera þetta. Segjum bara að almenningur fengi, áður en hann færi að borga skatta, bara að velja hvort hann vildi borga skatta eða fara með fé á fjármálamarkaðinn. Er eitthvert vit í því? Ekki nokkurt. Af hverju í ósköpunum er vit í því að leyfa einhverju kerfi að leika sér með skattpeninga og skattpeninga framtíðarinnar? Það töpuðust hundruð milljarðar í rauninni. Skattpeningar töpuðust hundruðum milljörðum saman í hruninu, eignir lífeyrissjóða. Þess vegna hafa lífeyrissjóðirnir ekki hækkað greiðslur eins og þeir hefðu átt að gera og þess vegna eigum við að tryggja það í eitt skipti fyrir öll að þetta gerist ekki aftur.