150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[20:26]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Áfram í þessum dúr. Í stjórnarsáttmálanum segir að það eigi að setja á laggirnar hálendisþjóðgarð, að eftir þetta kjörtímabil muni þessi ríkisstjórn hafa komið í gegn hér lögum um það hvernig hálendisþjóðgarður eigi að líta út og ramma í kringum hann. Þegar hæstv. ráðherrar eru síðan að ræða þjóðgarðinn og þegar mótmælin við honum koma — það eru hávær mótmæli, t.d. hjá sveitarstjórnarmönnum á Suðurlandi — og þegar hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherrann segir: Við verðum að hlusta á þessar gagnrýnisraddir, er hann um leið að segja að mínu áliti, og ég vil spyrja hvort hv. þingmaður sé sammála mér, að viðmiðin í kringum þjóðgarðinn verði ekki eins og viðmið eru yfir höfuð um þjóðgarða ef það á að taka að fullu tillit til gagnrýnisradda sem upp hafa komið.

Ég held að hið sama eigi við um rammaáætlun. Ef rammaáætlun verður samþykkt eins og hún stendur núna skarast það líka svolítið á við þennan alþjóðlega ramma um þjóðgarða ef ég þekki það rétt. Ég spyr hv. þingmann hvort hann sé sammála mér um þetta og hvort það geti í rauninni farið saman að hér verði þjóðgarður á hálendinu, rammaáætlun samþykkt (Forseti hringir.) og ríkisstjórnin haldi.