150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[20:28]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við þurfum væntanlega bara að spyrja að leikslokum hvað verði með rammaáætlun og miðhálendisþjóðgarð þegar þau mál koma loksins til kasta þingsins, en sú umræða sem er farin af stað nú þegar á samráðsstigi lofar ekki góðu. Það er gríðarleg togstreita og búið að klína saman tveimur málum sem eiga ekki að vera föst saman, rammaáætlunina annars vegar og hálendisþjóðgarðinn hins vegar. Það að draga einhverja línu í sandinn við 3. áfanga rammaáætlunar sem hefur verið lagður tvívegis fyrir þingið og ekki samþykktur setur allt of mikinn þrýsting á virkjanir sem eru þó nógu miklar fyrir. Við erum það ríki heims sem framleiðir mest af raforku á íbúa, við erum í langfyrsta sæti. Við erum með sem nemur á að giska tveimur Kárahnjúkavirkjunum í nýtingarflokki þeirrar rammaáætlunar sem var samþykkt á vordögum 2013. Er það ekki nóg? Er ekki nóg komið af ágengri nýtingu orkuauðlinda landsins þegar við getum náð miklu meira fram með því að friða miðhálendi Íslands sem er sérstakt á heimsvísu? Þar er eftir miklu meiru að slægjast en litlum 90 megavatta virkjunum upp undir hálendisbrún.

Ég var að dusta rykið af því sem ég mundi um 3. áfanga rammaáætlunar þegar fréttist að hann ætti að koma til þingsins aftur og mér hrýs hugur við sumum hugmyndum sem hefur verið troðið þangað inn. Þær segja dálítið um það hvernig orkulobbíið hefur starfað. Tökum t.d. Torfajökulssvæðið, friðland að Fjallabaki. Þar er búið að raða háhitavirkjunum eins og perlufesti rétt upp við friðlýsingarmörk. Vill fólk sem nýtur þess einstaka svæðis, kyrrðarinnar og náttúrufegurðarinnar (Forseti hringir.) sætta sig við einhverja gufubólstra allt í kring? Á þessum lista eru hugmyndir sem eru svo galnar að þær ættu ekki einu sinni að vera til skoðunar alveg óháð miðhálendisþjóðgarði.