150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[20:31]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir mjög góða ræðu. Við lokin á þessari umræðu er einmitt jákvætt að við séum að ræða um stærsta mál samtímans, umhverfismálin. Frá því að hv. þingmaður öðlaðist sjálfstæði sitt hefur hann lagt fram mjög gott frumvarp sem ég styð heils hugar og snýr að því að loftslagsráð hafi skýrara markmið, hafi það markmið að fylgjast með þeim markmiðum sem stjórnvöld setja sér í loftslagsmálum og veita þeim aðhald og eftirlit um hversu vel gangi. Þetta er frumvarp sem, eins og ég segi, ég styð mjög eindregið enda held ég að ég sé með í að flytja það.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort það hafi verið eitthvað ákveðið, með hvaða atriði hv. þingmanni finnist þurfa betra eftirlit, hvaða þættir í þeirri aðgerðaáætlun sem ríkisstjórnin hefur sett sér í loftslagsmálum og hreykir sér gjarnan af standist kannski ekki alveg eða þurfi frekara eftirlits við, hvað þessi sérfræðingahópur þurfi að meta hvort skili einhverjum árangri. Ég er í raun að spyrja: Hvað er það alveg sérstaklega sem við þurfum að skoða þegar ríkisstjórnin segist ætla að gera eitthvað en verkefnin fylgja ekki endilega? Eru einhver sérstök dæmi sem hv. þingmaður er að hugsa um?

Ég styð alltaf almennt eftirlit með aðgerðum stjórnvalda en ég velti fyrir mér hvort það séu sérstakir þættir í þessari aðgerðaáætlun sem þingmaðurinn telur ástæðu til að fylgjast betur með. Hann minntist á samgönguáætlun en kannski er aðeins stærri mynd á borðinu líka.