150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

ræktun iðnaðarhamps.

[13:37]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er rétt að það var frétt á RÚV í gærkvöldi sem fjallaði beinlínis um þetta mál. Það hefur verið til umfjöllunar um allnokkurt skeið og hefur komið upp í ýmsum fréttatímum enda hefur Lyfjastofnun borist fjöldi fyrirspurna og erinda sem snúa að því hver sé sú lögformlega staða sem hv. þingmaður vísar til í fyrirspurninni. Þess vegna var staða iðnaðarhamps og CBD af þeim sökum tekin sérstaklega til skoðunar hjá stofnuninni. Niðurstaða Lyfjastofnunar er að ákvæði ávana- og fíkniefnalaga með síðari breytingum feli í sér að plöntur af þessum toga falli undir ákvæði laganna, þ.e. að ef til kæmi eða til stæði að skoðuðu máli að breyta þessari stöðu þyrfti að breyta lögum um ávana- og fíkniefni. Það er a.m.k. niðurstaða Lyfjastofnunar.

Ég hef líka fylgst með umræðunni að því er varðar samskipti við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og af þeim sökum höfum við komið á samskiptum milli ráðuneytanna tveggja, heilbrigðisráðuneytisins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, í því skyni að setja saman starfshóp til að skoða málið. Markmiðið er ekki alveg fastmótað en það yrði líklega að skoða möguleika á því að nota hamp í iðnaði og hvaða lagabreytinga yrði þá þörf o.s.frv., og þetta yrði til skoðunar. Ég býst við, og var að ræða það við sessunaut minn í ríkisstjórn, að við náum að koma starfshópnum saman í þessari viku. Væntanlega þyrfti þar líka aðkomu umhverfisráðuneytisins í ljósi þess að þarna er um að ræða ræktun.