150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

ræktun iðnaðarhamps.

[13:39]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er jákvætt og gott að heyra að setja eigi á fót þennan hóp sem allra fyrst. Á sama tíma hef ég samt smááhyggjur af þeirri stöðu sem upp er komin. Við erum með mikla lagaflækju og dálítið að draga lappirnar í málinu sem getur gert það að verkum að uppskera fyrir sumarið sé ónýt, að ekki verði hægt að fá fræin. Lyfjastofnun hefur í þessu máli haldið á lofti þeirri lögskýringu að orðið kannabis sé að finna á bannlista yfir efni sem talin eru upp í lögum um ávana- og fíkniefni, eins og ráðherra segir. Í svari við umsókn til Lyfjastofnunar um innflutning á hampfræjum árið 2013 segir samt, með leyfi forseta:

„Hins vegar virðist óhætt að segja að sé gengið út frá því að þú sýnir fram á að yrkið sem þú hyggst flytja inn fræ fyrir henti ekki til ræktunar plantna með verulegu THC-innihaldi þannig að um ólögmæta ræktun væri að ræða þá falli fræin ekki undir ákvæði laga um ávana- og fíkniefni.“

Afstaða Lyfjastofnunar virðist hafa breyst furðulega mikið á þessum tíma. Lyfjastofnun (Forseti hringir.) hefur heimild til að veita undanþágu og það sem mig langar að spyrja um í lokin er hvort hæstv. ráðherra telji sig geta (Forseti hringir.) beitt sér fyrir því á einhvern hátt, a.m.k. á meðan við erum að greiða úr þessari flækju, að Lyfjastofnun geti (Forseti hringir.) veitt undanþágu til þessara frumkvöðla (Forseti hringir.) svo þeir geti fengið fræ og að hér verði þá einhver uppskera í sumar (Forseti hringir.) svo við séum ekki að eyðileggja þeirra góða starf. — Afsakið, forseti.