150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

fé til rannsókna fjármálamisferlis.

[13:41]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Mér er afskaplega umhugað um að eftirlitsstofnanir okkar virki sem skyldi. Við höfum heyrt og séð fyrr í vetur Kveiksþátt sem leiðir að því líkur að hér séu höfð í frammi af stóru fyrirtæki skipulögð glæpastarfsemi í formi peningaþvættis, skattundanskota og mútugreiðslna. Í kjölfarið kallaði héraðssaksóknari eftir auknu fjármagni í starfsemi sína til að geta aukið við um sex stöðugildi sem mér skilst að séu metin á um 90 millj. kr. á ári. Hæstv. fjármálaráðherra var svolítið gagnrýndur fyrir það fyrir jólin að setja ekki inn í fjárlög og festa þetta fjármagn alveg örugglega þannig að við gætum gengið rösklega fram í þessum rannsóknum. Því fyrr, því betra að koma þessu út af borðinu í hvora áttina sem er. Nú hefur hins vegar komið í ljós að hæstv. fjármálaráðherra hefur gefið það út að um 200 millj. kr. verði lagðar inn núna í rannsóknarteymi okkar og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvert fara þessir peningar? Má héraðssaksóknari, áður sérstakur saksóknari, eiga von á því að þetta fjármagn muni skila sér til hans í þeim mæli sem hann óskaði eftir sem lágmarksviðbótarmannaflaaukningu í starfsemi sína til að geta unnið faglega og vel að því að útkljá þetta mál eða koma að því?