150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

fé til rannsókna fjármálamisferlis.

[13:45]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið en ég ætlaði ekki endilega að tala um hvað við höfum verið að agnúast út í fyrir jól. Ég hef líka verið í góðu samtali við héraðssaksóknara þar sem kemur í ljós að hann hefur ekki getað aukið við einn einasta mann. Hann hefur enn ekki fengið eina einustu krónu. Það sem hæstv. ráðherra segir, sem ég er mjög þakklát fyrir að fá hér hreint og klárt fram, er að á þessu ári sé möguleiki að hann geti bætt við þremur stöðugildum. Í beinu framhaldi verður maður að spyrja: Telur hæstv. fjármálaráðherra alvarleika málsins ekki vera slíkan að við eigum að sýna það út á við og alls staðar, við sem erum nú komin á gráan lista, við sem erum að horfa upp á það víðs vegar að Íslendingar koma í rauninni að lokuðum dyrum vegna þess að við erum komin á gráan lista? Við drógum lappirnar að undirgangast þá löggjöf sem við urðum að gera til þess að sýna það og sanna að við værum að berjast gegn hvers konar skipulagðri fjármálaglæpastarfsemi. Finnst hæstv. fjármálaráðherra í alvöru nóg að setja núna ígildi þriggja stöðugilda til héraðssaksóknara í ljósi alvarleika málsins og í ljósi þess að það er verið að fylgjast með okkur úti um allan heim? Alþjóðasamfélagið starir á það hvernig við ætlum að bregðast við.