150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

eftirlit með gjaldeyrisútboðum Seðlabanka Íslands.

[13:48]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Á nokkurra ára tímabili stóð opinber stofnun, Seðlabanki Íslands, fyrir aðgerð sem fólst í því að bjóða upp á vildarkjör í gjaldeyrisviðskiptum að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Hér ræðir um svonefnd gjaldeyrisútboð bankans sem fólu í sér að þeir sem kusu að koma með gjaldeyri til Íslands, eins og það var orðað, gátu skipt þeim í íslenskar krónur á hagstæðara gengi en ef þeir myndu gera það í viðskiptabanka eftir venjulegum leiðum.

Nú hefur hæstv. ráðherra svarað fyrirspurn frá mér, og ég þakka honum fyrir svarið, um það hvernig eftirliti var háttað með því að í þessum gjaldeyrisútboðum væri fylgt ákvæðum um uppruna fjármuna með vísan til reglna um eftirlit með peningaþvætti og því að fjárfestir hafi verið raunverulegur eigandi fjármuna. Það kemur fram í svari hæstv. ráðherra að formlega hafi þátttaka í útboðunum verið í nafni innlends fjármálafyrirtækis og réttarstaðan því sú, eins og það er orðað, að það væri gagnaðili Seðlabankans í viðskiptunum. Það kemur fram að þessum fjármálafyrirtækjum var skylt að kanna fjárfesta með tilliti til laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og staðfesta gagnvart Seðlabankanum.

Þetta vekur upp þá spurningu, herra forseti, hvort ráðherra telji að þarna hafi verið nægilega tryggilega staðið að verki, að fela fjármálastofnunum eftirlitshlutverk af þessu tagi. Það er til að mynda ekkert minnst á Fjármálaeftirlitið í þessu svari. En spurningin er um viðhorf hæstv. ráðherra til þess hvort þarna hafi verið staðið að verki með fullnægjandi hætti.