150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

eftirlit með gjaldeyrisútboðum Seðlabanka Íslands.

[13:53]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það er annað atriði í svari hæstv. ráðherra við fyrirspurn minni sem ég vil gera að umtalsefni. Þegar ég spyr hvort ráðherra telji koma til greina að birta nöfn raunverulegra eigenda sem fengu samþykkt tilboð og nutu með þeim hætti þeirra kjara, þeirra vildarkjara leyfi ég mér að segja, sem buðust af hálfu Seðlabanka Íslands í umræddum gjaldeyrisviðskiptum, þá er svarað og vísað í ákvæði um þagnarskyldu samkvæmt gildandi lögum og sagt að listi yfir nöfn einstaklinga og lögaðila ásamt fjárhæðum sem hver aðili flutti til landsins falli undir þagnarskylduákvæði samkvæmt úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Ég spyr ráðherra líka í ljósi þess að það er talið, ég vitna hérna í grein í Kjarnanum frá því 26. desember sl., að virðisaukningin sem fjárfestingarleiðin færði eigendum gjaldeyrisins í íslenskum krónum hafi numið nærri 49 milljörðum kr. Ég spyr hæstv. ráðherra um (Forseti hringir.) viðhorf hans til þess að þannig hafi verið búið um hnúta að ekki sé hægt að greina frá því hverjir það voru sem nutu þessara vildarkjara og nutu þess ávinnings (Forseti hringir.) sem þarna er metinn hátt í 50 milljarðar kr.