150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

eftirlit með gjaldeyrisútboðum Seðlabanka Íslands.

[13:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Mitt viðhorf til þess að það þurfi að gæta að reglum um þau efni er að mér finnst það eðlilegt í sjálfu sér, en mér finnst það óheppilegt. Mér finnst óheppilegt að þetta sé ekki betur fyrir opnum dyrum, svipað og við værum almennt með útboð á vegum hins opinbera um kaup á opinberri þjónustu eða einhverjum vörum eða öðru, það væri langheppilegast og þá gildir almennt sú regla að það er opinbert hverjir taka þátt í útboði. Þarna er í sjálfu sér með ákveðnum hætti verið að halda útboð en við verðum samt sem áður að virða leikreglurnar sem lagt var af stað með.

Mig langar samt að nefna í því sambandi að öll þau mál verða að skoðast í ljósi þess tíma sem þetta var framkvæmt. Það hljómar undarlega núna þegar við sitjum á rétt um 900 milljarða gjaldeyrisvaraforða að við höfum verið að framkvæma útboð fyrir nokkrum árum til að fá gjaldeyri inn í landið. Þannig var það nú samt. Það er svo stutt síðan.