150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

staðan í heilbrigðiskerfinu.

[13:56]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég hef óskað eftir að eiga orðastað við hæstv. heilbrigðisráðherra um stöðuna í heilbrigðiskerfinu. Við erum í þessu saman en ekki er hægt að horfa fram hjá því að ráðherra málaflokksins ber ábyrgð á stöðunni og hefur völd til að bregðast við. Jú, það hefur eitthvað verið aukið við framlög til heilbrigðismála en við verðum að líta á staðreyndir. Samkvæmt skýrslu OECD setjum við mun lægri hluta vergrar landsframleiðslu til málaflokksins en samanburðarlönd og það breyttist ekki 2018 og 2019. Ríkisstjórnin hefur útskýrt þennan mikla mun með ungum aldri þjóðarinnar, með því að landsframleiðslan sé að aukast og að fleiri krónur séu settar í málaflokkinn en minnist ekkert á rúmlega 20% niðurskurð í hruninu sem enn er óbættur, læknasamninga 2015 sem einnig eru óbættir; minnist ekkert á fámenna og dreifða þjóð og há laun hér á landi sem eru milli 70 og 80% af útgjöldum í heilbrigðiskerfinu. Þetta, herra forseti, verður að taka með í reikninginn.

Ég vil biðja hæstv. ráðherra um að hlusta á raddir þeirra sem reka hjúkrunarheimilin, sem segjast þurfa að senda veikasta fólkið á Landspítala í sparnaðarskyni; hlusta á raddir forsvarsmanna heilbrigðisstofnana úti á landi sem þurfa, ef stjórnvöld bregðast ekki við, að loka á þjónustu og jafnvel loka skurðstofum og senda veikasta fólkið á Landspítala. Og loks horfa á ástandið á bráðamóttöku og öðrum deildum Landspítala og svara spurningunni: Er nóg gert? Þarf ekki að viðurkenna ástandið í heilbrigðiskerfinu og bregðast við af meiri alvöru?