150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

staðan í heilbrigðiskerfinu.

[13:57]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og er sammála því sem kemur fram í hennar máli að við erum í þessu saman. Til þess að ræða um heilbrigðismál þarf maður að hafa í huga og í fyrirrúmi mikilvægi þess að það sé til stefna í málaflokknum. Það er sem betur fer þannig að það er til stefna sem var samþykkt á Alþingi í júní á síðasta ári og stefnan naut stuðnings þingflokks Pírata og þingflokks Samfylkingarinnar, þingmanna sem voru þeirrar skoðunar að heilbrigðismál væru málaflokkur sem væri ekki sérstaklega vel til þess fallinn að geyma í skotgröfum heldur væri betra að um hann gilti samstaða til lengri framtíðar.

Af því að hv. þingmaður nefnir svo tölur og aukið framlag inn í heilbrigðisþjónustuna þá er það svo að á mínum tíma í heilbrigðisráðuneytinu hefur verið aukið í þennan málaflokk um 34 milljarða. En það er rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns að það er lægri hluti samkvæmt tölum sem eru frá 2017, í nýjustu tölum OECD sem eru í nýjustu skýrslunni frá 2019, þegar horft er til hlutfalls af vergri landsframleiðslu. Þegar horft er hins vegar til þess hversu mikið framlag fer á hvern íbúa erum við þar t.d. með meira en það sem Finnar setja í sitt kerfi þannig að það eru ýmsar leiðir til að horfa á þetta. Ég er hins vegar sammála því að það þarf að fjármagna þetta kerfi betur og það tekur langan tíma að koma okkur upp úr niðurskurðartímabilinu sem var því miður ekki bara eftir hrun heldur líka í aðdraganda þess.