150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

vandi Landspítalans.

[14:02]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ekki hefur farið fram hjá neinum í umræðunni á undanförnum vikum sá mikli vandi sem Landspítalinn er að glíma við. Það verður að sæta nokkurri furðu hjá ríkisstjórn sem að eigin sögn hefur verið með heilbrigðismálin í algerum forgangi á þessu kjörtímabili að við séum á miðju kjörtímabilinu að glíma við jafn brýnan vanda hjá Landspítalanum og raun ber vitni. En það er kannski ekki furðulegt þegar nánar er að gáð. Það er búið að tala um það árum saman að stærsta vandamál Landspítalans sé hinn svonefndi fráflæðisvandi og að samhliða öldrun þjóðarinnar sem er mjög hröð, eins og kom fram í fyrri óundirbúinni fyrirspurn, þyrfti að spýta verulega í varðandi byggingu nýrra hjúkrunarrýma til þess einmitt að létta á Landspítalanum. Þetta sagðist ríkisstjórnin ætla að gera í sinni stefnuyfirlýsingu. En hvar eru þessi hjúkrunarrými, hæstv. heilbrigðisráðherra?

Það verður ekki séð samkvæmt þeim áætlunum sem heilbrigðisráðuneytið birti nú síðast í haust að það séu nein ný hjúkrunarrými svo talist geti sem sett hafa verið af stað í tíð þessarar ríkisstjórnar. Samt má ætla að þörfin sé fyrir a.m.k. 100 ný rými á ári. Til að halda þeim tölum í samhengi: Nettóaukning í hjúkrunarrýmum á undanförnum áratug er u.þ.b. 90 rými í það heila, ekki á ári hverju heldur í það heila. Og enn bólar ekki neitt á neinum áformum. Hæstv. ráðherra boðaði átak á höfuðborgarsvæðinu, 200 ný rými, en samkvæmt nýjustu áætlun heilbrigðisráðuneytisins hefur þeim rýmum ekki einu sinni verið fundin lóð, hvað þá að verið sé að undirbúa útboð eða koma slíkum rýmum í framkvæmd. Að óbreyttu mun fráflæðisvandi Landspítalans aðeins halda áfram að aukast út þetta kjörtímabil, nema eitthvað verði að gert. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvað hyggst ráðherra gera?