150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

vandi Landspítalans.

[14:04]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns að það er eitt stærsta og mikilvægasta viðfangsefni, ekki bara heilbrigðiskerfisins heldur líka reksturs hins opinbera og samfélagsins, að tryggja viðunandi þjónustu fyrir sífellt fleiri aldraða íbúa. Eins og kemur fram í máli og spurningu hv. þingmanns voru kynnt hér áform þegar ég tók við í heilbrigðisráðuneytinu um umtalsverða uppbyggingu og nú í lok næsta mánaðar verða opnuð 99 rými á Sléttuvegi. En af því að hv. þingmaður hefur haldið sig við það að lítið eða ekkert hafi gerst á mínum tíma og við séum meira að opna eitthvað sem einhverjir aðrir hafa byrjað á þá erum við bæði að tala um nýjar framkvæmdir á Húsavík, Höfn og í Árborg, skóflustunga hefur verið tekin í Árborg.

Ég held að það sé mjög mikilvægt þegar við erum að tala um þessa þjónustu að horfa meira til sveigjanlegra úrræða fyrir aldraða, þ.e. sveigjanleg dagdvöl og heimahjúkrun. Þar sem heimahjúkrun er annars vegar höfum við Íslendinga ekki aðeins dregist aftur úr heldur höfum við í raun aldrei skilað nokkru sem nemur til heimahjúkrunar í samanburði við löndin í kringum okkur. Meira að segja þegar við berum saman framlög til heilbrigðisþjónustu á milli til að mynda Íslands og Svíþjóðar þá erum við að líkindum að leggja ámóta fram í heilsugæslu en við leggjum kannski fram einn áttunda ef við erum að tala um heimahjúkrun. Af þeim sökum hef ég lagt áherslu á það líka að við leysum þetta ekki allt með því að byggja fleiri hjúkrunarrými, þó að áætlunin standi og henni verði komið til framkvæmda, heldur þurfum við einnig að bæta umtalsvert í heimahjúkrun, dagdvalarúrræði og ég tala nú ekki um heilsueflingu aldraðra sem skiptir líka miklu máli.