150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

fyrirkomulag loðnurannsókna.

[14:10]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað til að spyrja um fyrirkomulag loðnurannsókna. Vöktun lífríkis, vöktun nytjastofna og hafrannsóknir eru forsenda sjálfbærrar verðmætasköpunar í sjávarútvegi. Rannsóknir á loðnustofninum eru þar ekki síst mikilvægar enda hegðun loðnunnar ekki alltaf fyrirsjáanleg og við þekkjum ýmsa þætti í lífsferli hennar miklu verr en við vildum gjarnan. Ef fram fer sem horfir, að það verði loðnubrestur annað árið í röð, hefur það víðtæk áhrif í íslensku samfélagi. Bein áhrif eru á uppsjávarfyrirtækin sem og fjölda fyrirtækja um land allt sem þjónusta þau, m.a. við landanir og flutninga, tækni og ýmislegt annað. Þar fyrir utan tapa einstaklingar og heimili mikilvægum tekjum, sveitarfélög og ríkissjóður. Sveitarfélagið þar sem áhrifin eru hvað mest er Fjarðabyggð en Vopnafjörður, Langanesbyggð, Hornafjörður og Vestmannaeyjar eiga einnig mikilla hagsmuna að gæta. Í Fjarðabyggð var tekið á móti tæpum helmingi af loðnuaflanum árið 2018 og mat bæjaryfirvalda er að beint tap sveitarfélagsins eins vegna loðnubrests á árinu 2019 hafi verið 280 millj. kr. Tekjutap annað árið í röð getur haft mun afdrifaríkari afleiðingar en eins árs tap. Þol fyrir öðrum sveiflum verður þá jafnframt minna.

Eðlilega spyrja því margir um forgangsröðun og fyrirkomulag við loðnurannsóknir og loðnuleit. Meðal annars lýsti bæjarráð Fjarðabyggðar í byrjun mánaðar yfir þungum áhyggjum af stöðu loðnuleitar á Íslandsmiðum og ég spyr því: Hvernig hefur loðnuleit verið háttað það sem af er vetri? Hverjir eru kostir og gallar við samstarf Hafró og sjávarútvegsfyrirtækjanna um leit og rannsóknir? Hafa einhverjar viðbótarrannsóknir verið skipulagðar á loðnustofninum á þessu ári umfram það sem hefðbundið er? Er eitthvað að frétta af loðnuleitinni sem nú stendur yfir fyrir veturinn í vetur eða næstu ár?