150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

fyrirkomulag loðnurannsókna.

[14:12]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er rétt sem kemur fram í máli hennar, þetta er gríðarlega brýnt verkefni. Loðnustofninn er afskaplega mikilvægur fyrir allt lífríkið við Ísland, um leið fyrir afkomu fjölda fólks og fyrirtækja og þar af leiðandi samfélagsins alls. Það er hárrétt sem kemur fram í máli þingmannsins varðandi þau sveitarfélög sem þetta snertir mest, það eru þessi svokölluðu uppsjávarsveitarfélög og til viðbótar því mun síðan niðursveifla í humri snerta önnur til viðbótar þessum sem og samdráttur í sæbjúgnaveiði. Mörg þessara samfélaga eru að verða fyrir gríðarlegri blóðtöku.

Það er alveg ljóst að stjórnvöld hafa í tíð þessarar ríkisstjórnar forgangsraðað fjármunum í þágu loðnurannsókna. Ég vil nefna sem dæmi um það að leit að loðnu hefur aldrei verið jafn víðtæk og umfangsmikil og var á síðustu vertíð. Það var til fyrirmyndar hvernig henni var háttað og gott samstarf var á milli Hafrannsóknastofnunar og fyrirtækjanna. Þrátt fyrir að aldrei hafi verið lagt jafn mikið í leit að þessum fiskstofni gáfu rannsóknir ekki tilefni til að hefja loðnuveiðar að nýju, því miður. Samstarfið hefur gengið mjög vel og í ljósi þess hvernig það gekk boðaði ég þessa aðila, Hafrannsóknastofnun og útgerðirnar, til fundar í september til að undirbúa leitina í vetur. Það samstarf gekk upp og er hafið. Loðnuleitin hófst í síðustu viku og í henni taka fjögur skip þátt auk Árna Friðrikssonar. Það liggur fyrir að veður setur mikið strik í reikninginn en ekki þó þannig að það komi endilega fram í því að við finnum ekki loðnuna, það verður bara ekki samfella í leitinni. (Forseti hringir.) Ég skal svara hv. þingmanni betur varðandi fréttir af gangi mála í síðara svari.